Þingmenn munu geta tekið þátt í nefndastörfum fastanefnda þingsins í gegnum fjarfundabúnað næstu vikur. Hingað til hafa þingsköp girt fyrir að svo sé hægt en tímabundin afbrigði voru samþykkt á þingfundi í dag þessa efnis til að forðast að Covid-19 veiran dreifi úr sér innan þingheims. Þingfundir munu aftur á móti halda áfram að fara fram í þingsalnum.

„Líkt og þingheimi er kunnugt hafa almannavarnir og sóttvarnalæknir lýst yfir neyðarstigi vegna Covid-19. Í samræmi við það hefur viðbragðsáætlun þingsins verið virkjuð sem miðar að því að halda Alþingi starfhæfu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, við framhald þingfundar eftir hádegi.

Fjarfundabúnaður er á nefndarsviði þingsins en samkvæmt þingsköpum teljast þingmenn sem hringja sig inn á fundi ekki ályktunarbærir um efni hans og njóta ekki tillöguréttar. Þá þarf meirihluta nefndarmanna að vera á staðnum til að geta afgreitt mál úr nefndum.

„Forseti leggur til tímabundin afbrigði frá þingsköpum, [líkt og þingsköp heimila], til að víkja frá skyldu þingmanna til að mæta á nefndarfundi svo þingmenn megi nýta fjarfundabúnað til afgreiðslu mála og tillagna. Með slíkum afbrigðum yrði vikið frá skilyrðum þingskapa til að mynda ályktunarbæra fundi,“ sagði Steingrímur. Afbrigðin munu að minnsta kosti gilda fram að páskaleyfi þingsins.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að í skoðun sé að grípa til frekari aðgerða á þinginu til að draga úr líkum á mögulegu smiti veirunnar. Meðal annars að þingmenn fari ekki saman í stórum hópum í mat heldur verði skipt niður í smærri hópa sem borði á mismunandi tímum.

Þrátt fyrir allt þetta munu þingfundir hins vegar fara fram með hefðbundnum hætti í þingsalnum. Þau sem hafa komið í þingsalinn vita að hann er smár í smíðum og þingmenn sitja þar afar þétt. Stjórnarskrá girðir fyrir það að unnt sé að nýta fjarfundabúnað við afgreiðslu þingmála inn í salnum.