Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur birt þriðju greinargerð sína um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta. Greinargerðirnar eru birtar á sex mánaða fresti þar til takmörkunum á fjármagnshreyfingum milli landa og gjaldeyrisviðskiptum verður endanlega létt.

Fram kemur í greinargerðinni að í byrjun júlí 2014 hafi fjármála- og efnahagsráðuneytið samið við lögmannsstofuna Cleary Gottlieb Steen & Hamilton, ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory og Anne Kruger, prófessor í hagfræði, um að vinna með íslenskum stjórnvöldum að losun fjármagnshafta. Lögmaðurinn Lee Buchheit starfar hjá Cleary Gottlieb Steen & Hamilton og mun hann stýra vinnu lögmannsstofunnar í verkefninu.

Í byrjun júlí réði fjármálaráðherra jafnframt fjóra sérfræðinga til að vinna að losun haftanna með fyrrgreindum ráðgjöfum. Þeir eru Benedikt Gíslason, ráðgjafi fjármála- og efnahagsráðherra í haftamálum, Eiríkur S. Svavarsson hæstaréttarlögmaður, Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabanka Íslands og Glenn V. Kim sem jafnframt leiðir verkefnið. Hefur hópurinn unnið náið með erlendu ráðgjöfunum síðustu tvo mánuði að heildstæðri lausn sem tekur á öllum þáttum fjármagnshaftanna og mun hann skila einstökum tillögum um leiðir til losun þeirra til stýrinefndar.

Þá kemur fram að Seðlabanki Íslands hafi haldið áfram gjaldeyrisútboðum sínum í samræmi við áætlun um afnám hafta sem birt var í mars árið 2011. Útboðunum er ætlað að lækka stöðu krónueigna erlendra aðila, aflandskróna. Með útboðunum og sérstökum viðskiptum Seðlabankans hefur tekist að lækka fjárhæð aflandskróna frá haustinu 2008 úr rúmlega 40% af vergri landsframleiðslu ársins 2008 í 16% af vergri landsframleiðslu um mitt ár 2014.