*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 23. október 2014 08:13

Fjárhæðir hafa áhrif á sakarmat í skattamálum

Lögmaður segir að því hærri sem fjárhæðir eru því líklegra sé að mistök við framtalsgerð teljist til skattsvika.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í máli, þar sem maður var dæmdur sekur um að hafa vantalið tekjur af afleiðusamningi að fjárhæð 120 milljónir króna, virðist sem fjárhæðin sem um ræðir hafa haft áhrif á sakarmat Hæstaréttar. Kemur þetta fram í grein sem Jakob Björgvin Jakobsson, lögmaður og verkefnastjóri á skatta- og lögfræðisviði Deloitte, skrifar í ViðskiptaMoggann í dag.

Í greininni rekur hann í stuttu máli efnisatriði málsins. Maðurinn bað fjárfestingabanka sinn um að senda öll gögn vegna hans mála til endurskoðanda síns. Bankinn hafði hins vegar sent rangar upplýsingar fyrir mistök í tölvupósti og skoðaði maðurinn ekki afrit af póstinum. Vörslureikningur vegna samninganna var stofnaður af fjárfestingabankanum hjá öðrum banka þannig að umræddar fjárhæðir komu aldrei fram á bankareikningum mannsins.

Þetta var talið stórkostlegt gáleysi af hálfu mannsins, þrátt fyrir að ljóst hafi verið að um mistök banka hafi verið að ræða, sérfræðingur hafi talið fram eftir bestu vitund og einstaklingurinn í góðri trú um að skattskil hans hafi verið í lagi.

Almennt gáleysi hefði valdið sýknu í málinu, en Jakob segir að ekki verði annað ráðið en að framangreint sakarmat í niðurstöðu Hæstaréttar sé aðallega byggt á því að um hafi verið að ræða verulegar fjárhæðir. Þannig má segja að eftir því sem um hærri fjárhæðir er að ræða sé sakarmatið strangara, þ.e. þeim mun hærri sem fjárhæðir eru þeim mun líklegra er að mistök við skattframtalsgerð teljist til skattsvika.