Að sögn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Skjás 1, liggur ekki fyrir á þessari stundu hvenær fréttaútsendingar hefjast á stöðinni en stefnt er að því að það verði í september. Nú er unnið að því að klára fréttasettið og kynningarefni er að verða tilbúið.

Útsendingarnar verða sem kunnugt er í samvinnu við Morgunblaðið sem sér um ritstjórnarlega hlið málsins. Allt frétta- og myndefni kemur frá Morgunblaðinu en Skjár 1 sér um rekstur og umgjörð fréttatímanns. Útsendingar verða á virkum dögum kl. 18.50 og verður lengd fréttatímans um 15 mínútur. Fréttatíminn verður síðan endursýndur kl. 21.50 á kvöldin.

Það er Skjár 1 sem mun sjá um rekstrarhlið útsendingarinnar og auglýsingasölu. Að sögn Sigríðar verður ávinningnum skipt á milli Skjás 1 og Morgunblaðsins í samræmi við það samkomuleg sem félögin gerðu fyrir stuttu. Inga Lind Karlsdóttir hefur verið ráðin fréttalesari og verður hún starfsmaður Skjás 1, sem og Elín Sveinsdóttir sem ráðin hefur verið útsendingastjóri. Fréttamenn og ritstjórn verða hins vegar á launum hjá Morgunblaðinu. Nú þegar notast Morgunblaðið við tökumenn vegna fréttaskeiða sem hafa verið unnin fyrir vef blaðsins, mbl.is.

Mikilvægur tími fyrir auglýsendur framundan

,,Ástæðan fyrir því að við förum í þetta verkefni er sú að við vitum að þetta er mikilvægur tími fyrir auglýsendur að ná til áhorfenda. Við teljum að fréttir frá Morgunblaðinu eigi erindi við fólk í gegnum sjónvarp. Við erum að leggja þetta upp þannig að við erum að nýta okkar þekkingu og getu og sama á við um Morgunblaðið,“ sagði Sigríður Margrét.

Að sögn Sigríðar er fjárhagsleg áhætta Skjás 1 í lágmarki. Aðspurð um afkomu Skjás 1 á þessu ári sagði hún að hún væri í samræmi við áætlanir. Það mótaði hins vegar reksturinn að auglýsingasala hefði dregist saman um 35 til 40%.