Samkomulag hefur náðst á milli þriggja fasteignafélaga háskólans á Bifröst og Íbúðalánasjóðs um fjárhagslega endurskipulagningu þeirra og sameiningu í eitt. Félögin eru Kiðá ehf., Vikrafell ehf. og Sölfell ehf. Samkomulagið hefur þó ekki verið endanlega staðfest því fyrst þarf að fá samþykki hjá velferðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun. Verðtryggð lán fasteignafélaganna nema um fjórum milljörðum króna.

Fasteignafélögin glíma við fjárhagserfiðleika, sem eiga rætur að rekja til þess að lagt var upp með ákveðna nýtingu á húsnæði með 280 námsmannaíbúðum- og herbergjum á Bifröst sem ekki gekk eftir.

Morgunblaðið hefur eftir Bryndísi Hlöðversdóttur, fráfarandi rektor háskólans á Bifröst, að lánshlutfall íbúðanna sé hátt. Þegar aðsókn í skólann hafi dregist saman hafi ekki verið full nýting á nemendagörðum. Bryndís segir að rekstrarfélögin þrjú séu sjálfstæð og fjárhagsstaða þeirra komi ekki niður á skólanum. Skólinn sjálfur sé ekki í fjárhagsvandræðum og rekstur gangi ágætlega. Áfram er að hennar sögn gert ráð fyrir að stærstur hluti íbúðanna verði nýttur af nemendum og starfsmönnum skólans en hluti er nýttur undir hótelstarfsemi.