Allir samningar sem snúa að fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair Group voru undirritaðir í morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar en þann 12. ágúst sl. tilkynnti Icelandair Group að samkomulag hafi náðst um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Í tilkynningunni segir að skjalagerð hafi tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir, en í morgun voru allir samningar undirritaðir.

Endurskipulagningin á sér stað með þrennum hætti eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.

Í fyrsta lagi kemur nýtt hlutafé sem verður greitt inn með reiðufé eftir að skráningarlýsing hefur verið birt í kauphöll. Fjárfestar hafa skráð sig fyrir um 5,5 milljörðum króna að markaðsvirði í nýju hlutafé á genginu 2,5 sem jafngildir ríflega 2,2 milljörðum nýrra hluta í Icelandair Group.

Í öðru lagi hafa stærstu lánveitendur Icelandair Group breytt skuldum að fjárhæð 3,6 milljarðar króna í hlutafé miðað við gengið 5, þannig að þeir munu skrá sig fyrir 720 milljón nýjum hlutum.  Rétt er að taka fram að í upphaflegri tilkynningu Icelandair Group frá því í sumar kom fram að fjárhæðin næmi 4,8 milljörðum króna en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gerðu lánveitendur kröfu um að lækka þá upphæð.

Heildarhlutafjárhækkun mun þannig nema um 2,9 milljörðum nýrra hluta að nafnvirði.

Í þriðja lagi lækka vaxtaberandi skuldir um ríflega 10 milljarða króna með yfirfærslu og sölu á tilteknum eignum sem ekki eru hluti af kjarnastarfsemi félagsins. Í kaupsamningum vegna eignasölunnar, sem undirritaðir voru í morgun, eru hefðbundnir fyrirvarar um og frágang formsatriða í tengslum við söluna, svo sem samþykki opinberra aðila, eftir því sem við á. Söluhagnaður vegna sölu eignanna nemur um 3,2 milljörðum króna en að teknu tilliti til skatta og þýðingarmunar eru áhrif á eigið fé jákvæð um 0,5 milljarða króna.

Samtals lækka vaxtaberandi skuldir um tæpa 14 milljarða króna og verða þær um 26 milljarðar króna eftir endurskipulagninguna, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Icelandair Group fyrirhugar að safna u.þ.b 2,5 milljörðum króna til viðbótar með útgáfu nýs hlutafjár. Tilkynnt verður síðar um fyrirkomulag og tímasetningu þess útboðs.