Greiningardeild Landsbankans hefur gefið út sérrit um samanburð á íslensku bönkunum.

Bankarnir eru allir vel í stakk búnir til að takast á við veikingu krónunnar og má koma til umtalsverðrar veikingar til viðbótar áður en eiginfjárhlutföll þeirra nálgast eigin markmið, segir greiningardeildin, og telur að fjárhagslegur styrkur og vaxtargeta bankanna sé talsverð.

Þrátt fyrir að stór hluti heildartekna bankanna á síðasta ári sé vegna gengishagnaðar benda útreikningar til þess að arðsemi af grunnafkomu bankanna sé viðunandi, segir greiningardeildin.

Hækkandi vaxtaálag á skuldabréf íslensku bankanna á evrópskum eftirmarkaði kemur þeim illa. Endurfjármögnunarþörf þeirra virðist ekki vera mikil á þessu ári og mun ástandið því tæplega hafa áhrif á endurfjármögnun bankanna.

Vaxtaálagið kemur aftur á móti til með að hafa áhrif á möguleika bankanna til fjármögnunar á frekari vexti, sérstaklega ef núverandi kjör haldast fram eftir ári.

Ritið í heild.