Miðað við vænta hagþróun næstu ára liggur því fyrir að stjórnvöld hafa tvo kosti til að brúa þann fjárlagahalla sem þau standa frammi fyrir.

Annað hvort þarf að skera niður útgjöld eða auka skattheimtu umtalsvert. Viðskiptaráð telur mikilvægt að stjórnvöld velji fyrri leiðina.

Þetta kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs sem birt er á vef ráðsins í dag.

„Fjárhagsstaða einstaklinga og heimila er nú þegar í molum og ekki á það bætandi með hækkun skatta,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

„Hætt er við að skattahækkanir leiði til enn frekari samdráttar sem myndi þrengja skattstofna og mögulega draga úr heildarskatttekjum á endanum. Í ljósi þess er skynsamlegt að forðast skattahækkanir eftir fremsta megni.“

Þá kemur fram í skoðun Viðskiptaráðs að þrátt fyrir góða afkomu hins opinbera síðustu ár hafa útgjöld vaxið með miklum hraða og því ljóst að umtalsvert svigrúm er til hagræðingar í rekstri þess.

„Um þetta hefur Viðskiptaráð ítrekað fjallað á undanförnum árum,“ segir á vef ráðsins.

„Minni umsvif hins opinbera myndu einnig draga úr fjárþörf þess og skapa mikilvægt athafnarými fyrir einkaaðila.“

Í skoðun Viðskiptaráðs kemur fram að samdráttur í skatttekjum og stórauknar vaxtagreiðslur munu setja hinu opinbera verulegar skorður á næstu árum. Samkvæmt viljayfirlýsingu stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs, leiðrétt fyrir hagsveiflu, verði orðin jákvæð árið 2011 og í kjölfarið hefjist markviss niðurgreiðsla skulda.

„Aðhaldssamri stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum ber að fagna enda grundvallarþáttur í endurreisn hagkerfisins,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

Skoðunina í heild sinni má nálgast HÉR . (pdf skjal)