Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sunds/IceCapital samstæðunnar er ósammála því að engar líkur séu á að félagið geti staðið við skuldbindingar. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins telja lánadrottnar Sund/IceCapital samstæðunnar engar líkur á að hún eða forsvarsmenn hennar geti staðið við þær skuldbindingar sem samstæðan undirgekkst.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að verið sé að grípa til aðgerða gegn Sundi/IceCapital innan skilanefndar Glitnis um þessar mundir. Meðal annars var reynt að kyrrsetja eignir félagsins í síðustu viku án árangurs. Þá hefur skilanefnd Landsbankans einnig reynt að ganga á Sund/IceCapital. Hún reyndi að kyrrsetja eignir þess fyrir um ári. Arion banki hefur síðan stefnt félaginu fyrir vanefndir á lánasamningi og verður það mál flutt fyrir héraðsdómi næstkomandi mánudag. Einn heimildarmanna Viðskiptablaðsins innan bankanna orðaði það svo að byrjað væri að „herða að þeim skrúfurnar“.

Telja sig ekki bundna af samningum

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sunds/IceCapital, segir kyrrsetningartilraunirnar hafa verið gerðar á grundvelli lánasamninga sem bankarnir gerðu við Sund/IceCapital sem heimiluðu félaginu einungis að nýta lánsféð til að kaupa hlutabréf í bönkunum sjálfum.

Hann segir fjárhagsstöðu Sunds/IceCapital alfarið fara eftir því hvort félagið sé bundið af þessum lánasamningum. „Líkt og hjá öðrum félögum sem hafa tapað miklu af eignum sínum, sérstaklega á hlutabréfum í föllnu bönkunum, þá hefur eignarhliðin skerst. En það er spurning hvort félagið sé bundið af þeim lánasamningum sem það gerði vegna kaupa á þessum eignum. Kaupþing veitti því til dæmis lán sem var bundið því skilyrði að það yrði notað til að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum. Kaupþing tók líka að sér eigna- og skuldastýringu fyrir Sund. Í dag er öll eignin farin, skuldastýringin fór fyrir bí og því spurning hvort félagið skuldi því sem nú heitir Arion banki þessa fjárhæð þegar hlutabréfin sem lánin voru notuð til að kaupa eru farin forgörðum þar sem að það mátti ekki selja þau á lánstímanum.“

Nánar er fjallað um málið nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .