Fram kemur í ritinu Fjármálastöðugleika sem Seðlabankinn gaf út í morgun að skuldavöxtur heimilanna hefur verið í takt við hagvöxt undanfarin tvö og hálft ár og hafa skuldir þeirra sem hlutfall að landsframleiðslu nánast staðið í stað eftir að hafa lækkað jafnt og þétt frá efnahagshruninu 2008.

„Vöxtur hefur verið í íbúðaskuldum síðastliðin tvö ár og heldur hefur gefið í vöxtinn á síðustu misserum. Aðrar skuldir heimilanna halda áfram að dragast saman. Samsetning íbúðalána hefur einnig breyst, óverðtryggð íbúðalán hafa orðið algengari undanfarin ár og eru nú um fimmtungur allra lána með veði í íbúðarhúsnæði," segir í ritinu.

Fjárhagsstaða einstaklinga með skuldsetta fasteign hefur batnað talsvert að undanförnu. Hækkun fasteignaverðs á undanförnum árum spilar þar inn í en sparnaður heimilanna hefur jafnframt aukist.

„Gjaldþrotum einstaklinga fækkar milli ára og einstaklingum á vanskilaskrá fækkar jafnt og þétt. Hlutfall útlána til heimila í vanefndum hjá stóru viðskiptabönkunum og Íbúðalánasjóði lækkaði um 0,5 prósentur á fyrri helmingi ársins."