Háskólinn á Hólum glímir við mikinn uppsafnaðan halla og skuldir sem yfirvöld menntamála og forráðamenn skólans þurfa að taka á sem fyrst, að mati Ríkisendurskoðunar.

Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem vakin var athygli á erfiðri fjárhagsstöðu Háskólans á Hólum, þar sem skólinn glímdi við mikinn uppsafnaðan halla og háar skuldir, einkum gagnvart ríkissjóði.

Í nýrri eftirfylgnisskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að fjárhagsstaða skólans hefur versnað frá árinu 2010. Uppsafnaður halli skólans nam 157 milljónum króna í árslok 2013, en það samsvaraði um 52% af fjárveitingu ársins. Heildarskuldir skólans námu 245 milljónum króna, en þar af nam skuld hans við ríkissjóð 233 milljónum króna. Útlit er fyrir að uppsafnaður halli muni nema 178 milljónum króna í árslok 2014.

Í skýrslu sinni árið 2011 beindi Ríkisendurskoðun samtals tíu ábendingum til skólans og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um úrbætur. Nú telur Ríkisendurskoðun hins vegar að ráðuneytið og skólinn hafi ekki brugðist við nema einni af ábendingum skýrslunnar, og hefur því ítrekað þær við skólann.

Ríkisendurskoðun segir fjárhagsstöðu skólans mikið áhyggjuefni og telur brýnt að ráðamenn og forráðamenn skólans taki á vandanum sem fyrst. Nánar má lesa um málið á vef Ríkisendurskoðunar .