Fjárhagsstaða tæplega helmings stærri fyrirtækja er mjög slæm að mati Samkeppniseftirlitsins en um fimmtungur fyrirtækja er í góðri stöðu. Tæplega þriðjungur fyrirtækja hefur lokið fjárhagslegri endurskipulagningu en sama hlutfall fyrirtækja telur sig ekki hafa þörf fyrir endurskipulagningu.

Vandi atvinnulífsins felst í of hægu ferli fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja, óánægju með framkvæmd hennar og skorti á trausti og gagnsæi. Þá er fjárhagsstaða um helmings fyrirtækja sem lokið hafa fjárhagslegri endurskipulagningu engu að síður mjög slæm samkvæmt greiningu Samkeppniseftirlitsins.

Sú hætta er fyrir hendi að samkeppni minnki verulega til lengri tíma litið vegna þess að of skuldsett fyrirtæki hafa ekki þrótt til að keppa og nýja aðila skortir fjármagn til að komast inn á markaði þar sem aðgangshindranir eru miklar að mati Samkeppniseftirlitsins.