Viðræður standa nú yfir milli Búmanna og Íbúðalánasjóðs þar sem leitast er við að finna lausn á fjárhagsvanda félagsins. Búmenn fengu heimild til greiðslustöðvunar þann 15. maí síðastliðinn og fyrir skömmu var sú heimild framlengd fram í desember. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

„Nú koma nýir menn inn í þær viðræður sem aðrar og við munum koma saman eftir helgi til að leggja línurnar fyrir framhaldið,“ segir Gunnar Kristinsson, nýkjörinn formaður Búmanna, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að félagið ætli að reyna að nýta tíma sem það hefur til að vinna úr þeim hugmyndum sem fram séu komnar.

Fjárhagsvandi Búmanna er mikill en fram kemur í Morgunblaðinu að sú ógn sem helst steðjar að félaginu felist í innlausnarskyldu þess á íbúðum þegar búseturéttarhafar vilja skila þeim af sér að lokinni búsetu. Gunnar segir að félagið sé engan veginn í stakk búið til að uppfylla þær skyldur sem það stendur gagnvart. Þann vanda þurfi að leysa.