Samkvæmt nýrri greiningu frá Íslandsbanka skulda heimili landsins nú um þessar mundir um 2.050 milljarða króna og hafa skuldir þeirra lækkað um 500 milljarða, eða 20%, árslokum 2007.

„Á sama tímabili hefur kaupmáttur launa aukist um 24%. Bæði hafa því skuldir heimilanna lækkað og kaupmáttur aukist. Þar að auki hefur hækkandi íbúðaverð undanfarinn áratug á umræddu tímabili aukið eigið fé þeirra heimila sem þegar eiga fasteignir.  Hefur áðurgreind þróun orðið til þess að auka verulega viðnámsþrótt gagnvart fjárhagslegum áföllum. Verður að teljast líklegt að fjárhagur heimilanna hafi heilt á litið sjaldan eða aldrei staðið á eins styrkum stoðum og nú,“ segir í greiningunni.

Í greiningunni kemur jafnframt fram að einstæðir karlmenn séu tvöfalt líklegri til að búa við íþyngjandi greiðslubyrði og að fólk á aldursbilinu 35-64 ára sé líklegast til að búa við íþygjandi greiðslubyrði.

„Talað er um að greiðslubyrði sé íþyngjandi þegar 40% eða hærra hlutfall útborgaðra launa fer í að þjónusta skuldir. Í þann flokk falla um 7% landsmanna um þessar mundir en hlutfallið var 11% árið 2015. Þannig hefur fækkað í hópi þeirra sem glíma við íþyngjandi greiðslubyrði sem hlýtur að teljast jákvæð þróun.“