*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Erlent 26. desember 2017 17:45

Fjárhagur SÞ skorinn niður um 30 milljarða

Bandaríkjaforseti segir atkvæðagreiðslu þjóða heims gegn ákvörðun um Jerúsalem spara mikla fjármuni.

Ritstjórn
epa

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Nikki Haley, segir óhagkvæmni og of mikla eyðslu Sameinuðu þjóðanna vera vel þekkta í tilefni þess að Bandaríkin hafa tryggt mikinn niðurskurð í fjármálum samtakanna á árunum 2018 til 2019 að því er The Independent greinir frá.

Mun fjárhagur samtakanna verða skorin niður um 285 milljón dali, eða sem nemur um 30 milljörðum íslenskra króna næstu tvö árin. Er það um 85 milljón dölum meiri niðurskurður en drög sem lögð voru fram í október gerðu ráð fyrir að því er fram kemur í CNN.

Heildarútgjöld nema 585 milljörðum

Bandaríkin hafa hingað til greitt rúmlega fimmtung af fjárframlögum sem samtökin hafa yfir að ráða, en ekki er ljóst hve mikið fjárframlag Bandaríkjanna sjálfra munu minnka við breytinguna. Heildarfjárhagur samtakanna verður hins vegar um 5,5 milljarðar dala, eða um 585 milljarðar íslenskra króna næstu tvö árin.

„Við munum ekki lengur láta misnota gjafmildi Bandaríkjamanna,“ sagði Haley, en hún vakti töluverða athygli fyrir skelegga ræðu þegar kosið var um ályktun í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um að fordæma Bandaríkin fyrir að flytja sendiráð sitt til höfuðborgar Ísraelsríkis. Hér má sjá myndband af ræðunni sem ýmsir hafa fordæmt en aðrir lofað.

Ísland var meðal 128 ríkja sem kusu með ályktuninni, en einungis 9 kusu á móti. Hins vegar sátu 35 þjóðir hjá, þar á meðal Argentína, Ástralía, Kanada, Króatía, Tékkland, Pólland og Rúmenía.

Sagði ákvörðunina ekki hindra tveggja ríkja lausn

Þar sagði Haley skýrt að atkvæðagreiðslan hefði áhrif á fjárframlög Bandaríkjanna til samtakanna sem og afstöðu stjórnvalda til ríkja heims eftir því hvernig þau kysu. Sagði hún það móðgun við Bandaríkin að skipta sér að ákvörðun stjórnvalda í málinu.

Í ræðunni sagði hún einnig að ákvörðun Bandaríkjanna hefði ekki áhrif á mögulega tveggja ríkja lausn til að tryggja frið á svæðinu fyrir íbúa Ísraels og palestínsku heimastjórnarsvæðanna. SÞ hafa hins vegar sagt síðan Jerúsalem var á ný sameinuð undir einni stjórn eftir sex daga stríðið 1967 að staða borgarinnar yrði að ákveða í beinumsamningaviðræðum þjóðanna sem byggja svæðið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hrósaði orðum sendiherrans og sagði áður en hann fór í jólafrí. „Látið þá kjósa gegn okkur. Við munum spara helling. Okkur er alveg sama,“ sagði Trump.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is