Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um tóku gildi í dag breytingar á lögum um gjaldeyrismál en 1. janúar 2017 bætast við enn frekari skref í átt að losun hafta.

Munu þá fjárhæðarmörkin vegna fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðslu lána í erlendum gjaldeyri hækka enn frekar, eða í 100 milljónir króna. Í dag fór fjárhæðin í 30 milljónir.

Fjárheimildirnar orðnar 100 milljónir króna

Innan þessara fjárheimilda verður heimilaður innstæðuflutningur. Falla niður skilyrði um innlenda vörsluaðila erlendrar verðbréfafjárfestingar og heimilaður verður vörsluflutningur verðbréfa.

Munu þar með innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu og átt viðskipti með verðbréf erlendis innan þeirra marka sem lögin setja þeim.

Veruleg rýmkun verður á heimildum einstaklinga til kaupa á og úttekta á erlendum gjaldeyri í reiðufé. Einstaklingum verður þá heimilt að kaupa eða taka út erlendan gjaldeyri í reiðufé innan framangreindra fjárhæðarmarka.