George Papaconstantinou, fyrrum fjármálaráðherra Grikklands, hefur verið sakfelldur fyrir að afmá nöfn skyldmenna af lista sem hafði að geyma nöfn hugsanlegra skattsvikara þar í landi.

Papaconstantinou var af þeim sökum dæmdur til eins árs skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar. Hann var sýknaður af ákæru um trúnaðarbrest í starfi.

Um var að ræða svonefndan „Lagarde“ lista yfir eigendur bankareikninga í svissnesku útibúi breska bankans HSBC. Fljótlega eftir að listinn barst ríkisstjórn Grikklands árið 2010 var hún sökuð um linkind gagnvart þeim sem þar var að finna.

Eitt helstu kosningamála núverandi ríkisstjórnar, undir forystu Alexis Tsipras, var að leggja sig fram um að upplýsa skattsvik í Grikklandi.