Viðskiptavefur Fréttablaðsins tók nýverið úr birtingu frétt um söluaukningu vindla gegnum hérlenda vefsíðu. Ástæðan fyrir því er að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafði boðað álagningu dagsekta vegna brota á tóbakslögjöfinni fengi fréttin að standa óhreyfð. Þetta kemur fram í leiðara Fréttablaðsins í dag en þar heldur Aðalheiður Ámundadóttir, annar fréttastjóra blaðsins, á penna.

Áður hefur verið frá slag forsvarsmanns vefsíðunnar við ÁTVR. Stofnunin hefur einkaleyfi til heildsölu á tóbaki og kaupir vindlana, sem hann flytur inn, við tollafgreiðslu. Þau kaup eru í reikningsviðskiptum. Síðan ber honum, að eigin sögn, að kaupa vindlana strax aftur af ÁTVR, með 18 prósenta álagi, en þau viðskipti skulu staðgreidd. Hefur hann í hyggju að stefna ríkinu vegna þessa fyrirkomulags.

„Í fréttinni kom fram að vefverslunin vindill.is hefði ákveðið að lækka verð í versluninni. „Sala á Vindill. is hefur gengið vonum framar og nú verður verð lækkað til að neytendur njóti þess,“ er haft eftir eigandanum í fréttinni. [...] Á hverjum degi birta fjölmiðlar fréttir af viðskiptum með vörur og þjónustu. Stundum ganga þau vel og stundum illa. Eitt af viðfangsefnum viðskiptafréttamanna er einmitt að taka þennan púls,“ segir í leiðaranum.

Degi eftir birtingu fréttarinnar barst blaðinu bréf frá Heilbrigðiseftirlitinu þar sem þess var krafist að fréttin yrði fjarlægð þannig að ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða. Eftirlitið taldi að um tóbaksauglýsingu væri að ræða en samkvæmt tóbaksvarnarlögum telst „hvers konar umfjöllun“ til auglýsinga nema stefnt sé að því að vara við skaðsemi tóbaks. Benti eftirlitið á að það hefði heimild til beitingu dagsekta, allt að 500 þúsund krónum á dag, eða að kæra málið til lögreglu ef fréttin yrði ekki fjarlægð.

„[Æskilegt væri] væri að löggjafinn tæki af skarið um það með skýrari hætti hvort Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur eigi að hafa vald til að ritskoða stærstu fjölmiðla landsins og setja þá á hausinn ef þeir hlýða ekki. Fréttablaðið vill gjarnan taka þennan slag. En enginn fjölmiðill á Íslandi hefur efni á að verja til þess startgjaldi upp á 15 milljónir króna á mánuði. Tvær spurningar brenna nú á ritstjórninni: Verður ritskoðunargjaldið fyrir þennan leiðara 15 milljónir á mánuði og á endanlega að ganga af frjálsri fjölmiðlun dauðri á Íslandi?“ segir Aðalheiður í niðurlagi greinarinnar .

Fréttin hefur nú verið fjarlægð af vef miðilsins eftir að hafa verið þar inni í um viku.