Fyrir einungis nokkrum árum síðan var það talið fjarlægt markmið að fjöldi ferðamanna yrði 1 milljón manna í ár eða á næsta ári. Þetta kom fram á fundi Landssambandi sjálfstæðiskvenna um ferðaþjónustunar.

Á fundinum fór Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, yfir hinn ævintýralega vöxt sem verið hefur í ferðaþjónustunni síðustu ár. Minntist Helga aðalfundar samtakanna frá árinu 2001 sem bar yfirskriftina: „Ein milljón ferðamanna árið 2015.“ Á þeim fundi var farið yfir hvað þyrfti að gera til að geta tekið á móti slíkum fjölda. Að byggja upp vegagerð var einn af þeim þáttum sem menn sáu strax að væri áríðandi að vinna að ásamt öðrum innviðum.

Því miður hefur uppbygging innviða ekki gengið eftir sem skyldi þó svo að aukning ferðamanna hafi vaxið ár frá ári. „Þá er áhersla á einföldun og endurskoðun regluverks, uppbygging innviða sem og aukin menntun og gæðavitund í greininni forgangsverkefni okkar hjá SAF næstu misserin ásamt því að vinna að farsælli lausn í gjaldtökumálum. Það er ljóst að það verður að byggja upp í kringum helstu náttúruperlur okkar ásamt því að búa til nýja segla. Langflestir ferðamenn koma út af náttúrunni, þessari takmörkuðu auðlind sem er á mörgum stöðum þegar komin að þolmörkum. Tækifæri landeiganda og ferðaþjónustunnar í heild sinni liggja ekki síst í því að byggja upp frekari virðisaukandi þjónustu á svæðunum,“ sagði Helga á fundinum.