Gert er ráð fyrir að bæði beinir og óbeinir skattar muni skila ríkissjóð rúmum 60 milljörðum króna á næsta ári.

Þetta kom fram í kynningu fjármálaráðherra á fjárlögum fyrir árið 2010 í morgun.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra sagðist aðspurður telja að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar muni skila sér í auknum tekjum til ríkissjóðs en vissulega sé gert ráð fyrir því að einhverjir kunni að draga saman seglin vegna þeirra.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 87,4 milljarða króna halla á fjárlögum, þ.e. að tekjur ríkissjóðs verði 468 milljarðar, en útgjöld 555,6 milljarðar.

Þá er gert ráð fyrir niðurskurði á ríkisútgjöldum um 43 milljarða króna en að auknar skattheimtur skili rúmum 61 milljarði eins og fyrr segir.

Þannig gerir fjármálaráðherra ráð fyrir að beinir skattar hækki um 37,6 milljarða króna en að óbeinir skattar hækki um 8 milljarða króna. Þá er loks gert ráð fyrir að nýjum orku, umhverfis og auðlindasköttum sem ráðherra segir að skili ríkissjóð um 16 milljörðum króna.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert grein fyrir því hvernig skattahækkanir verða útfærðar en Steingrímur J. sagði við fjölmiðla í morgun að það yrði gert við vinnslu frumvarpsins á Alþingi.

Gengið eins langt í niðurskurði eins og hægt er, segir fjármálaráðherra

Aðspurður hvort nógu langt væri gengið í niðurskurði á fjárlögum sagði Steingrímur svo vera. Ekki væri pólitískur né efnahagslegur vilji til að skera niður enn frekar. Hann sagði að niðurskurður væri erfiður og ríkisstjórnin væri að ganga mjög langt í því verkefni.

Ef horft er til lengri tíma er gert ráð fyrir tekjuafgangi ríkissjóðs árið 2013 en að jákvæður frumjöfnuður náist árið 2011. Til þess þarf hann að batna um 16% af vergri landsframleiðslu á tveimur árum.

Þá er gert ráð fyrir samdrætti upp á 1,9% á næsta ári en 2,8% hagvexti árið 2011.

Loks gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir því að verðlag hækki um 5% á næsta ári en á sama tíma lækki kaupmáttur um 11,4%.