Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti fjárlagafrumvarp repúblikana á síðustu stundu, rétt fyrir miðnætti í gær að bandarískum tíma.

219 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en 206 á móti því. Barack Obama Bandaríkjaforseti hafði hvatt þingmenn demókrata til þess að samþykkja frumvarpið.

Með samþykkt frumvarpsins er stærstur hluti ríkisins fjármagnaður fram í september á næsta ári. Sumt er fjármagnað til styttri tíma, til að mynda heimavarnarráðuneytið, en repúblikanar eru mótfallnir áformum forsetans um umbætur í innflytjendamálum.

Repúblikanar eru nú með meirihluta í báðum deildum þingsins. 57 þingmenn demókrata greiddu atkvæði með frumvarpinu en aðrir voru mjög óánægðir með hvatningu forsetans um að þeir styddu frumvarpið. Nancy Pelosi, leiðtogi þeirra í fulltrúadeildinni, sagðist hafa orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með afstöðu Obama.