Ríkisstjórnin kynnti í morgun helstu efnisatriði fjárlagafrumvarpsins, sem lagt verður fyrir Alþingi seinna í dag, fyrir fulltrúum fjárlaganefndar. Þar kemur fram stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum næsta árs.

Nú fyrir hádegi var völdum blaðamönnum boðið að hlýða á kynningu Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á frumvarpinu gegn því að halda trúnað um efnisatriði þess þangað til það verður lagt fram á Alþingi. Samkvæmt hefð er fjárlagafrumvarpið fyrsta mál sem lagt er fram á hverju þingi.

Steingrímur  boðaði afar harðar aðgerðir í aðhaldi í ríkisfjármálum í niðurlagi ræðu sinnar á fundi Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands í síðustu viku.

„Það er staðreynd að við verðum að afla ríkisjóði tekna, til að gera tvennt. Að standa undir sameiginlegum markmiðum og við verðum að nota tekjur að einhverju leyti upp í því að komast út úr hallarekstri ríkissjóðs því annars förum við á hausinn. Við verðum að stíga “mjööög” fast á fótinn, hvað varðar samdrátt í útgjöldum núna annað árið eða í raun og veru þriðju umferð með fjárlagafrumvarpinu sem kemur núna á næstu dögum. Þar sem þrír fjórðu aðgerðanna verða samdráttur, niðurskurður útgjalda, aðgerðir til að koma í veg fyrir útgjöld.

Ég vil gefa þá yfirlýsingu hér fyrir mitt leyti, að gangi það að mestu leyti eftir hjá okkur þá séum við komin að neðri mörkum þess sem er félagslega gerlegt og efnahagslega vitrænt. Þá held ég að aðlögunin  á þá hlið sé orðin svo mikil að við þurfum að fara að hafa verulegar áhyggjur af því hvaða áhrif  það hefur, ekki bara á velferðarsamfélagið, heldur líka á eftirspurn í samfélaginu ef við færum að ganga lengra en það. Þannig að restin af aðlöguninni á árinu 2012 og 13 verður þá aðallega að koma á tekjuhlið og þá vonandi á batnandi gengi okkar allra,” sagði Steingrímur.