Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015 verður kynnt á blaðamannafundi í Salnum í Kópavogi í dag. Mun fjármála- og efnahagsráðherra fara þar yfir helstu atriði frumvarpsins.

Greint er frá því í Fréttablaðinu nú í morgun að heimildir blaðsins hermi að fjárheimildir nokkurra stofnana muni dragast saman. Þar á meðal séu embætti umboðsmanns skuldara, Vinnumálastofnun og skattrannsóknarstjóri. Kemur fram að skorið verði niður í fjárheimildum til umboðsmanns skuldara um fjörutíu prósent og hann muni þurfa að huga að nýju húsnæði fyrir starfsemi sína.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Fréttablaðið að hún sé sátt við frumvarpið og að það sé í takti við margt af því sem Sjálfstæðismenn hafi lagt áherslu á.