Ísland trónir á toppi OECD ríkja yfir mesta fjárlagahallann árið 2009 en samkvæmt tölum OECD nemur fjárlagahallinn fyrir árið um 15,7% af VLF.

Næst á eftir kemur Grikkland með 12,7% halla á fjárlögum en það sem hins vegar vekur nokkra athyli er að Bretland kemur í þriðja sæti með 12,6% halla á fjárlögum og því aðeins rétt fyrir neðan Grikkland sem nú stefnir í greiðsluþrot ef ekkert verður að gert.

Rétt er að minna á að samkvæmt reglum myntbandalags Evrópusambandsins er ríkjum sem taka upp evru ekki heimilt að hafa fjárlagahalla umfram 3% af VLF. Bretar hafa hins vegar ekki tekið upp evru og það er lítið sem bendir til þess að þeir komi til með að gera það í náinni framtíð.

Ross Walker, yfirhagfræðingur RBS, segir í samtali við Telegraph aðspurður um fjárlagahallann á Bretlandi, að hann væri fyrirséður í ljósi þess að bresk yfirvöld hafi rekið ríkið með halla líka á góðærisárunum.

Sjá nánar í frétt Telegraph en þar má einnig sjá töflu yfir fjárlagahalla einstakra OECD ríkja.