Ríkisstjórn Spánar hefur varað við því að halli á rekstri ríkisjóðsins í ár verði um 8% af vergri landsframleiðslu, sem er heilum tveimur prósentustigum, eða 20 milljörðum evra meiri halli en samkomulag við ESB hafði gert ráð fyrir.

Ný ríkisstjórn hægrimanna á Spáni tók við völdum fyrir viku síðan og eftir ríkisstjórnarfund í gær var greint frá nýjum aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Gera þær ráð fyrir 8,9 milljarða evra niðurskurði í útgjöldum og skattahækkunum, sem eiga að skila um sex milljörðum evra í ríkiskassann.

Búist hafði verið við því að hallinn væri meiri í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir en sérfræðingar höfðu þó ekki búist við meiri halla en e.t.v. 7% af vergri landsframleiðslu. Þessi mikli halli mun einnig gera spænskum stjórnvöldum erfiðara fyrir að ná markmiðinu um 4,4% halla á næsta ári.