*

föstudagur, 18. júní 2021
Innlent 10. desember 2020 10:00

Fjárlagahallinn verður 320 milljarðar

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis vill auka ríkisútgjöld um ríflega 55 milljarða frá fyrstu fjárlagatillögum. Hallinn 10,4% af VLF.

Ritstjórn

Rekstrarhalli ríkissjóðs á næsta ári mun nema nærri 320 milljörðum íslenskra króna ef tillögur meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um 55,3 milljarða króna viðbótarútgjöld frá fyrstu tillögum verða að veruleika.

Þar með verður fjárlagahallinn um 10,4% af vergri landsframleiðslu sem sagt er í nefndarálitinu sem birt var í gærkvöldi að rúmist innan þess 3% óvissusvigrúms sem samþykkt var inn í fjármálastefnuna í haust.

Af viðbótarútgjöldunum sem meirihluti nefndarinnar hefur fallist á vega þyngst 19,8 milljarðar króna vegna viðspyrnustyrkja og 6 milljarðar króna vegna framlengingar á hlutabótaleið.

Í álitinu segir að á þeim rúmum tveimur mánuðum síðan fjárlagafrumvarpið hafi verið lagt fram hafi væntar tekjur ríkissjóðs á næsta ári lækkað um 162 milljónir króna, aðallega vegna breytinga á tekjuflokkum innbyrðis, sem sagðar eru ýmist til hækkunar eða lækkunar.

Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir 124 milljarða króna hækkun útgjalda frá fjárlögum ársins 2020, en með breytingunum nú verður hækkunin því samtals 180 milljarðar króna. Þar með nemur fjárlagahallinn í frumvarpinu eins og áður segir 320 milljörðum króna, eða 10,4% af vergri landsframleiðslu.

Stikkorð: Alþingi Fjárlög fjárlaganefnd