„Það verður að forða því að hjúkrunarheimilið fari í þrot og finna lausnir til að það verði rekstrarhæft. Það þarf að gerast hratt og vel,“ segir Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Nefndin fundaði í morgun með Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins Eirar um erfiða fjárhagsstöðu þess. Sigurður var jafnframt hátt í tuttugu ár ritari fjárlaganefndar. Hann tók við framkvæmdastjórastöðunni hjá Eir í byrjun árs.

Á fundi fjárlaganefndar í morgun var ákveðið að Björn Valur muni sem formaður fjárlaganefndar taka sæti í tengslahópi sem ætlað er að fara yfir stöðu hjúkrunarheimilisins og vinna með kröfuhöfum að því að leysa úr fjárhagsvanda þess. Tengslahópurinn hefur fundað einu sinni um málefni heimilisins.

Eins og fram hefur komið er rekstur hjúkrunarheimilisins í járnum; hjúkrunarheimilið skuldar Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum sex milljarða króna og íbúum Eirar tvo milljarða til viðbótar. Ofan á allt er eiginfjárstaðan neikvæð. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, steig til hliðar sem stjórnarformaður hjúkrunarheimilisins vegna stöðu þess.

Björn Valur segir í samtali við vb.is mikilvægt að leysa úr vanda hjúkrunarheimilisins.

„Það er algjör samstaða um það í nefndinni, þvert á alla flokka, að við munum gera allt sem í okkar stendur að tryggja það að þeir íbúar sem búa á hjúkrunarheimilinu munu áfram búa þar í þeim íbúðum sem þeir búa í og að hjúkrunarheimilið haldi áfram að veita þá þjónustu sem því ber að veita,“ segir hann.