„Hér er rætt opinskátt um stöðu sveitarfélaganna. Við stöndum frammi fyrir því að sum sveitarfélög eru skuldug og önnur standa betur,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Nefndin mun alla vikuna funda með forsvarsmönnum sveitarfélaga um ýmsa þætti sem þau snertir. Vigdís segir hefð fyrir því að fulltrúar sveitarféleaganna fái fund með fjárlaganefnd, kynni fyrir henni áherslur sínar og útskýri mál ef einhver eru, rekstur sveitarfélaganna og mál sem varða sameiginlegan rekstur sveitarfélaga og ríkisins.

„Sveitarfélögin þurfa að koma sínum sjónarmiðum sínum á framfæri í fjárlaganefnd,“ segir Vigdís. Fundur fjárlaganefndar hófst klukkan 9 í morgun og stendur enn yfir. Búist er við svipaðri dagskrá út alla vikuna.

VIðskiptablaðið fjallaði ítarlega um skuldastöðu sveitarfélaganna 17. október síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast umfjöllun blaðsins hér að ofan undir liðnum tölublöð .