Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að ríkisstjórninni verði falið að gera ráðstafanir til að þeir sem kunna að bera ábyrgð á tilurð Icesave-reikninganna, og því hvernig farið var með fjármuni sem söfnuðust, axli fjárhagslega ábyrgð á því tjóni sem af hefur hlotist fyrir ríkið. Meiri hlutinn telur rétt að ríkisstjórnin hafi í því sambandi samráð við ríkislögmann sem fer með bótakröfur fyrir hönd ríkisins.

Þetta kemur fram í meirihlutaáliti fjárlaganefndar vegna Icesave frumvarpsins sem nú hefur verið lagt fram á þingi. Þar er einnig vísað til þess að gera megi ráð fyrir að atvik mála verði mun ljósari þegar rannsóknarnefnd Alþingis hefur lokið störfum síðar á þessu ári.