Innheimtar tekjur ríkissjóðs eru yfir áætlun á fyrstu fjórum mánuðum ársins og rekstrargjöld rúmum 3% umfram áætlun fjárlaga. Vísbendingar eru um að þróunin verði neikvæð á árinu, að því er fram kemur í skýrslu Fjárlaganefndar um framkvæmd fjárlaga á fyrsta fjórðungi ársins.

Nefndin hefur afgreitt frá sér skýrslu um framkvæmd fjárlaga. Hún er nýlunda en markmið hennar er að stuðla að bættri framkvæmd fjárlaga.

Nefndin leggur á það áherslu í skýrslunni að fyrir 15. ágúst verði ráðuneytin búin að grípa til viðeigandi ráðstafana þannig að ríkisútgjöld verði í samræmi við fjárlög og skili nefndinni minnisblöðum þar um. Ráðuneytunum ber að leysa fjárhagsvanda einstakra fjárlagaliða innan núverandi heildarfjárhagsramma.

Enn margt óleyst

Þá brýnir Fjárlaganefnd fyrir fjármálaráðuneyti og öðrum ráðuneytum að vanda til mánaðardreifingar útgjaldaáætlunar þannig að bókhald ríkisins gefi á hverjum tíma sem gleggsta mynd af fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Hún bendir sömuleiðis á að í gjaldahlið fjárlaga hafi ekki verið tekið tillit til margs konar óvissu sem gæti leitt til margra milljarða króna útgjalda. Enn séu ýmis ófrágengin mál sem tengjast bankahruninu, s.s. vegna mats á eignastöðu sparisjóða og Íbúðalánasjóðs og taps Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Því til viðbótar bendir Fjárlaganefnd á að á næstu árum þarf að gera ráð fyrir stórhækkun á greiðslum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, einkum vegna skuldbindinga til B-deildar sjóðsins, en svokallaðar hreinar lífeyrisskuldbindingar námu 345 ma.kr. í árslok 2010.