Hægt er að lækka útgjöld ríkisins um rúmlega 71 milljarða króna án þess að hreyfa mikið við mennta- og velverðarkerfinu.

Þetta kemur fram í fjárlagatillögum Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) en SUS hefur nú, þriðja árið í röð, lagt fram fjárlagatillögur þar sem lagður er til sparnaðar vegna fjárlagafrumvarps næsta árs.

„Fjármálaráðherra kynnti í byrjun október sitt þriðja fjárlagafrumvarp þar sem enn er gert ráð fyrir halla á rekstri ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs nemi á næsta ári 17,7 milljörðum króna og gangi það eftir verður árið 2012 fimmta árið í röð þar sem ríkissjóður er rekinn með halla og fjórða í röð undir stjórn vinstri manna,“ stendur í tilkynningu frá SUS sem send var samhliða fjárlagatillögunum.

„Samanlagður halli á árunum 2008 – 2012 verður því a.m.k. tæpir 540 milljarðar króna. Reikningurinn fyrir þessum halla verður sendur framtíðarskattgreiðendum sem munu þurfa að taka á sig óábyrgan rekstur vinstri manna á fjármálum ríkisins.Núverandi vinstristjórn hefur kosið að fjármagna hallarrekstur sinn með aukinni skattheimtu en það má öllum vera ljóst að hvorki heimilin né fyrirtækin í landinu mega við hærri sköttum. Þrátt fyrir það gerir fjárlagafrumvarp næsta árs enn ráð fyrir skattahækkunum.“

Ungir sjálfstæðismenn segja að verði farið að tillögum þeirra megi gera ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs án skattahækkana vinstristjórnarinnar auk þess sem ýmist væri hægt að lækka skatta eða greiða niður skuldir ríkissjóðs.

SUS gengur þó að eigin sögn nokkuð lengra í sparnaðartillögum sínum nú en sl. tvö ár.

„Ástæðan fyrir því er þó nokkuð einföld, það þarf að forgangsraða og hugsa verkefni hins opinbera upp á nýtt,“ segir í tilkynningu SUS.

„Á hverju ári eru skattgreiðendur látnir fjármagna hvert verkefnið á fætur öðru sem ekkert hefur að gera með grunnþarfir eða skyldur ríkisins. Ríkið á að tryggja öryggi borgaranna, sjá fyrir þeim sem minna mega sín og tryggja almenningi aðgang að heilbrigðis- og menntakerfi með einhverjum hætti. Annað þarf ekki að vera í höndum ríkisins né fjármagnað af skattgreiðendum.“

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að það gefi augaleið að endurskoða þurfi forgangsröðun ríkisins þegar „skattgreiðendur eru látnir fjármagna tónlistar- og menningarhús á sama tíma og nauðsynlegum deildum er lokað á spítölum landsins svo nærtækt og nýlegt dæmi sé tekið.“

Loks kemur fram að skýrslan verður send öllum þingmönnum.

Sjá skýrsluna í heild sinni.

Davíð Þorláksson
Davíð Þorláksson
© Aðsend mynd (AÐSEND)


Davíð Þorláksson, formaður SUS.