Ekki er gert ráð fyrir fleiri róttækum breytingum á skattkerfinu á árunum 2012 – 2015 gangi áætlanir fjármálaráðuneytisins eftir. Þó verða nokkrar breytingar, mis áhrifamiklar, gerðar á skattkerfinu á næsta ári.

Þetta kemur fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins um áætlun í ríkisfjármálum sem kynnt var í dag samhliða fjárlögum ársins 2012. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, lagði í dag fram frumvarp til fjárlaga næsta árs sem gerir ráð fyrir 17,7 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Það eru því þriðju fjárlögin í röð sem Steingrímur leggur fram í fjármálaráðherratíð sinni sem gera ráð fyrir halla á rekstri ríkissjóðs.

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að skattkerfisbreytingar hafi aukið tekjur ríkissjóðs verulega. Nær allar þessar breytingar fela í sér hækkun á sköttum eða álagningu nýrra skatta. Á árinu 2009 jukust tekjur ríkissjóðs um tæpa 24 milljarða í kjölfar breytinga á skattkerfinu , á árinu 2010 nam tekjuaukningin tæpum 69 milljörðum króna og gert er ráð fyrir að tekjuaukningin í ár nemi um 83 milljörðum króna. Í fjárlögum næstar árs er gert ráð fyrir að auknar tekjur ríkissjóðs vegna skattahækkana nemi 95 milljörðum króna.

Þá fela aðrar tekjuaðgerðir ríkissjóðs í sér tekjur upp á rúma 13 milljarða á næsta ári samkvæmt skýrslu ráðuneytisins þannig að gera má ráð fyrir að 108 milljörðum í auknar tekjur vegna fyrrnefndra aðgerða.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir skömmu verður þó nýr skattur lagður á fjármálafyrirtæki á næsta ári, skattur sem hefur hlotið nafnið fjársýsluskattur. Gert er ráð fyrir að hann færi ríkinu um 4,5 milljarða króna í tekjur árlega frá og með næsta ári. Um er að ræða nýjan 10,5% skatt á heildarlaunagreiðslur fjármalafyrirtækja, lífeyrissjóða og vátryggingafélaga.

Þá stendur til að draga úr frádráttarbærni iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar frá tekjuskattsstofni þannig að hámark launþega verði 2% af launum í stað 4%. Þetta á samkvæmt skýrslu ráðuneytisins að færa ríkinu tekjur upp á 1,4 milljarða á ársgrundvelli.

Þá stendur jafnframt til að taka upp viðbótarþrep á auðlegðarskatt, skatt sem þó átti einungis að vera tímabundinn þegar hann var fyrst kynntur til sögunnar af núverandi fjármálaráðherra. Enn á þó eftir að ákveða endanlega útfærslu en gert er ráð fyrir að þessi skattahækkun færi ríkinu um 1,5 milljarð króna í auknar tekjur á ársgrundvelli.

Loks er gert ráð fyrir hækkun kolefnisgjalds sem og hækkun á veiðigjaldi en samanlagt eiga þessar hækkanir að færa ríkinu rúma 2 milljarða í auknar tekjur á næsta ári og tæpa 7 milljarða á árunum þar á eftir samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins.