Gert er ráð fyrir um 17,7 milljarða króna halla á fjárlögum næsta árs, skv. fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra sem lagt var fram í dag. Þetta er nokkuð minni halli en gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs, þegar gert var ráð fyrir 36 milljarða króna halla þó allt stefni í að hann verði hærri í ár.

Heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári eru áætluð 539,2 milljarðar króna og aukast um 14,3 milljarða frá áætlun þessa árs. Samkvæmt frumvarpinu má rekja helstu útgjaldaaukninguna til hækkunar launa vegna kjarasamninga auk hækkun almennra bóta.

Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 521,5 milljarðar króna á næsta ári og aukast um 38,7 milljarða frá áætlun 2011. Þá er áætlað að frumjöfnuður verði jákvæður um 39,6 milljarða króna á rekstrargrunni sem jafngildir 2,2% af landsframleiðslu.

Niðurskurður á næsta ári nemur 8,6 milljörðum króna en ný tekjuöflun ríkisins skilar tæpum 21 milljarði króna, samkvæmt frumvarpinu.

Að sögn Steingríms J. Sigfússonar felur endurmat ríkisfjármálastefnunnar í sér ekki verði unnið jafn hratt í því að ná fram hallalausum fjárlögum og áður var stefnt að. Við kynningu fjárlaga árið 2010 var miðað við að ríkissjóður yrði rekinn án halla árið 2013 en nú er stefnt að því að ná fram hallarlausum fjárlögum árið 2014. Á kynningarfundi fyrir blaðamenn í morgun sagði Steingrímur að þetta væri í takt við áætlanir sem gerðar voru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðspurður sagði hann það ekki veikja stöðu Íslands út á við að „fresta“ því um eitt ár að ná fram hallarlausum fjárlögum.

Þá sagði Steingrímur að hagkerfið væri nú farið að vaxa á ný eftir mikinn samdrátt sl. 2-3 ár. Því væri svigrúm til þess að fjármagna forgangsverkefni sem setið höfðum á hakanum sl. ár. Þar mætti nefna framlag upp á um 1,2 milljarða króna í átak í menntamálum ungs fólks og atvinnuleitenda, sérstakt átak í almenningssamgöngum fyrir um 200 milljónir króna, eflingu Norðurslóðaverkefna, um 300 milljóna króna aukið framlag til þróunarsamvinnu og 300 milljóna króna framlag til átaks í atvinnumálum og ferðaþjónustu.