Að sögn Oddnýjar G. Harðardóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, er meginþema fjárlagafrumvarps næsta árs í takt við fyrri áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum sem unnar voru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS).

Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir 2,8 milljarða króna halla á rekstri ríkisins á næsta ári skv. fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í dag. Þetta yrði þá sjötta árið í röð sem ríkið er rekið með halla. Samanlagður halli af rekstri ríkisins á árunum 2008 – 2013 verður því um 597 milljarðar króna, en um 380 milljarðar króna frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum árið 2009.

Samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar og AGS er gert ráð fyrir hallarlausum ríkisrekstri árið 2014 og skv. frumvarpinu sem lagt var fram í dag gera áætlanir fyrir tæplega 18 milljarða króna afgangi árið 2014. Rétt er að rifja upp að upphaflega var gert ráð fyrir því að ná fram jöfnuði á næsta ári, en við kynningu fjárlaga þessa árs, í október í fyrra, kynnti þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, áætlun um að „fresta“ því um eitt ár að ná fram hallarlausum fjárlögum.

Á kynningarfundi fyrir blaðamenn í morgun sagði Oddný að ekki hafi staðið til að ná fram hallarlausum fjárlögum á næsta ári. Viðskiptablaðið spurði Oddnýjum, í ljósi þess að gert er ráð fyrir aðeins 2,8 milljarða króna halla, hvort ekki hefði gefist svigrúm til að lækka útgjöld ríkisins um þá upphæð til að reka ríkið þó ekki væri á nema núlli.

„Við stefnum í raun ekkert að því að gera betur en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ sagði Oddný aðspurð um þetta. Hún sagði að niðurskurður í fjárlögum fyrri ára hefði gengið mjög nálægt almenningi og í fjárlagafrumvarpi næsta árs væri nær að tala um aðhald frekar en niðurskurð. Þá ítrekaði hún að frumvarpið væri í takt við áætlanir en frekar yrði horft til þess að auka tekjur ríkisins heldur en að minnka útgjöld.