Gert er ráð fyrir um 2,8  milljarða króna halla á fjárlögum næsta árs, skv. fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra sem lagt var fram í dag. Þetta er nokkuð minni halli en gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs, þegar gert var ráð fyrir 17,7 milljarða króna halla þó allt stefni í að hann verði um 25,8 milljarðar í ár.

Heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári eru áætluð 573,1 milljarður króna og hækka um tæpa 34 milljarða frá fjárlögum síðasta árs, en um 13,7 milljarða króna frá endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2012.

Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 570,3 milljarðar króna og eiga samkvæmt því að aukast um 36,8 milljarða króna frá endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2012. Þá er áætlað að skattatekjur ríkissjóðs nemi 508,8 milljörðum á næsta ári og aukist um 29 milljarða króna á milli ára, að mestu leyti vegna hærri óbeinna skatta.

Þá er áætlað að frumjöfnuður verði jákvæður um 60 milljarða króna á rekstrargrunni sem jafngildir 3,2% af landsframleiðslu. Með frumjöfnuði er átt við afkomu ríkissjóðs án vaxta- og fjármunagjalda.