Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015 var kynnt af Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, nú í morgun. Helstu tíðindi af frumvarpinu eru þau að reiknað er með afgangi upp á 4,1 milljarð og er í annað sinn frá hruni gert ráð fyrir hallalausu fjárlagafrumvarpi.

Ef litið er á útgjaldahlið frumvarpsins má sjá að heildarútgjöld ríkissjóðs hækka um 9,5 milljarða frá áætlun 2014 en um 53 milljarða ef miðað er við fjárlagafrumvarpið frá fyrra ári.

Hvað tekjuhliðina varðar er gert ráð fyrir að þær verði 644 milljarðar árið 2015 borið saman við 587 milljarða króna tekjur í fjárlögum ársins 2014, sem í ljós hefur komið að voru vanáætlaðar. Munar þar mestu um tekjur af virðisaukaskatt sem áætlað er að skilji 24 milljörðum meira í tekjur á arið 2015 heldur en á yfirstandandi ári.

Sala á eignum til að lækka skuldir

Þrátt fyrir að afgangur sé á fjárlagafrumvarpinu sér ekki högg á vatni þegar kemur að skuldum ríkissjóðs næstu árin. Þannig eru vaxtagjöld ríkissjóðs orðinn þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins og hafa ekki verið hærri síðan árið 2009.

Fjármálaráðherra telur að frekari lækkun útgjalda komi ekki til álita í baráttunni gegn skuldasöfnun heldur þurfi að selja eignir ríkisins. Verði það ekki gert muni það taka áratugi að greiða niður þær skuldir sem ríkissjóður, og þar með skattgreiðendur, standi frammi fyrir.

Til að lækka skuldir rikissjóðs verður eignarhluti ríkisins í Landsbankanum seldur og fjármálaráðherra hefur að auki heimild til að selja hluti í Arion banka og Íslandsbanka. Þá kemur einnig til greina að selja ýmsar jarðir og lóðir í eigu ríkisins í þágu sama markmiðs.

VB sjónvarp ræddi við fjármálaráðherra um fjárlagafrumvarpið, útgjaldaaukningu, skuldir ríkissjóðs og sölu á Landsbankanum.