Fjárlög er almennt séð virt í nágrannalöndunum og heyrir til undantekninga að stofnanir fari fram úr heimildum. Staðan hér á landi er hins vegar allt önnur enda hafa margar stofnanir og ráðuneyti farið langt fram úr fjárheimildum á undanförnum árum. Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar, "Framkvæmd fjárlaga árið 2003", kemur fram að alltof margir fjárlagaliðir fara ár eftir ár fram úr þeim fjárheimildum sem starfseminni voru ætlaðar í fjárlögum. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að farið sé eftir þeim reglum sem fjármálaráðuneytið hefur sett um framkvæmd fjárlaga, m.a. um ábyrgð forstöðumanna.

Í fjárlögum samþykkir Alþingi þau útgjöld sem ráðuneytum og stofnunum eru heimiluð til starfsemi sinnar. Áður en til frekari útgjalda er stofnað þarf að fá til þess heimild hjá Alþingi og er kveðið sérstaklega um það í 41. gr. stjórnarskrárinnar að ?ekki gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum."

Sú umframkeyrsla sem viðgengist hefur hjá ráðuneytum og einstökum stofnunum ár eftir ár hefur leitt til þess að markmið stjórnvalda um hóflega aukningu ríkisútgjalda og hallalausan reksutr síðustu ár hafa ekki gengið eftir. Af sömu ástæðu hafa spár fjármálaráðuneytisins um árlega aukningu samneyslu engan veginn staðist.