*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 18. nóvember 2019 11:46

Fjárlög gegn samdrætti

Tæplega hægt að segja að stórfellt átak sé í opinberum fjárfestingum að mati Hagfræðideildar Landsbankans.

Ritstjórn
Fjármálaráðuneytið við Arnarhvoll.
Haraldur Guðjónsson

„Sé litið á helstu áherslur í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi má fyrst nefna skattalækkanir og breytingar á tekjuskatti einstaklinga.“ Þannig skrifar Hagfræðideild Landsbankans í nýrri Hagsjá sem birt er á vef bankans þar sem fjallað er framvarp til fjárlaga 2020 undir yfirskriftinni Slakað á aðhaldi til að mæta efnahagssamdrætti. 

„Markmið breytinganna er einkum að hækka ráðstöfunartekjur tekjulágra einstaklinga og er það gert í samræmi við yfirlýsingar í tengslum við gerð kjarasamninganna frá því í vor. Í nýju nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar er t.d. sagt að ráðstöfunartekjur einstaklinga með mánaðarlaun á bilinu 325–600 þús.kr. muni hækka um 70–120 þús. kr. á ári þegar þessar aðgerðir hafa verið framkvæmdar að fullu,“ segir í Hagsjánni, auk þess sem minnst er á lækkun tryggingagjalds um 0,25% og lengingu fæðingarorlofs úr níu í tíu mánuði. Þá verði framlag til barna bóta aukið um 1 milljarð og stofnframlög til íbúðabygginga verða einnig hækkuð. 

„Er opinber fjárfesting nógu mikil,“ spyr deildin bendir á að að árið 2017 hafi fjárfesting í efnislegum eignum numið u.þ.b. 36 milljörðum króna en í frumvarpi fyrir næsta ár sé gert ráð fyrir fjárfestingu upp á 72,4 milljarða króna, eða tvöföldun frá árinu 2017. Hækkunin frá árinu 2019 nemi rúmum 10 milljörðum króna sem sé aukning um 17%.

„Ein veigamesta tillaga meirihluta fjárlaganefndar um breytingar er lækkun á fjárveitingu til nýbyggingar Landspítalans um 3,5 ma.kr., að sögn vegna tafa við framkvæmdir. Að öðru jöfnu þýðir þetta að opinberar fjárfestingar á næsta ári verða 3,5 mö.kr. minni en ella hefði orðið,“ segir í Hagsjánni og telur deildin tæplega hægt að segja að stórfellt átak hafi orðið í opinberum fjárfestingum á síðustu misserum á sama tíma og mikið hafi dregið úr atvinnuvegafjárfestingu. 

„Gallinn við sértækar ríkisfjármálaaðgerðir á fjárfestingarhlið ríkisfjármála til að mæta hagsveiflum er að erfitt er að tímasetja aðgerðir nákvæmlega. Það helgast bæði af ýmiskonar vandamálum við mat á stöðu hagsveiflunnar út frá ófullkomnum þjóðhagsgögnum, og ekki síður vegna tafa við að ráðast í framkvæmdir þegar ákvörðun hefur loks verið tekin. Því er ávallt sú hætta til staðar að þegar fyrirhugaðar opinberar framkvæmdir komast loks á fullt skrið þá hafi hagkerfið þegar breytt um stefnu og aðgerðin hafi á endanum sveiflumagnandi áhrif í stað þess að vera sveiflujafnandi.“

„Breytingar í kringum fjárlagafrumvarpið fyrir 2020 eru ekki miklar hvort sem litið er á breytingar milli ára eða breytingar frá upphaflegu frumvarpi. Með lögunum um opinber fjármál hefur myndast mun meiri festa en áður var í ríkisfjármálum. Fyrirsjáanleikinn er mun meiri en áður var og breytingar mun minni.“