Gert er ráð fyrir því að vörugjöld af bílasölu nemi fimm milljörðum króna á næsta ári. Gangi það eftir munu 9.500 bílar verða seldir á næsta ári sem jafngildir 6% aukningu í sölu frá þessu ári. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í fjárlögum fyrir næsta ár sem Bjarni Benediktsson mælti nýverið fyrir á Alþingi.

Í greinagerð með fjárlögunum segir að samkvæmt áætlun um tekjur ríkisins fyrir þetta ár eigi vörugjöld af bílum að skila um 4,7 milljörðum króna sem er sama upphæð og árið 2011.

Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins, segir í tilkynningu það fagnaðarefni að gert sé ráð fyrir aukinni bílasölu í fjárlögum. Hver nýr bíll skili umtalsverðum upphæðum í þjóðarbúið bæði í formi vörugjalda og virðisaukaskatts auk þess sem nýir bílar eyði minna en eldri árgerðir.

„Við finnum fyrir mikilli þörf til endurnýjunar bílaflotans, jafnt hjá fyrirtækjum sem einstaklingum,“ segir hann og bendir á að bílafloti landsmanna sé orðinn einn sá elsti í Evrópu. Hann bendir á að mikilvægt sé að gerðar verði nokkrar leiðréttingar á vörugjöldum án þess þó að þurfi að kollvarpa núverandi kerfi. Mikilvægast sé að lækka tolla á pallbíla sem notaðir eru í atvinnustarfsemi og stærri jeppum.