Í nefndaráliti annars minnihluta fjárlaganefndar, sem undirritað er af Bjarkeyju Gunnarsdóttur, þingmanni VG, er farið hörðum orðum um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Þar kemur fram að fjárlagafrumvarpið einkennist af hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, þar sem stjórnvöld skeri bæði niður skatttekjur og opinbera þjónustu.

„Á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins sést þetta á þeirri sveltistefnu sem rekin er gagnvart heilbrigðis- og menntastofnunum landsins,“ segir í álitinu. Jafnframt kemur fram að minnihlutinn telji að raunveruleg orsök hrunsins hafi verið ójöfnuður og fjárglæfrastarfsemi sem þáverandi stjórnvöld hafi borið ábyrgð á, auk gjaldþrota efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokks.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála, almannatrygginga og annarra velferðarmála verði aukin um 4 milljarða króna umfram verðlag, að viðbættum aukaframlögum sem minnihluti fjárlaganefndar hefur lagt til.