Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, segir í grein í Markaðnum á Fréttablaðinu í morgun að fjárlög stjórnvalda reynist oftast marklítil. Ríkissjóður eyði nánast undantekningarlaust umfram fjárheimildir og jafnvel þótt brugðist sé við með því að veita auknar heimildir til útgjalda í fjáraukalögum verði niðurstaðan í flestum tilvikum sú að að útgjöldin vaxi umfram heimildir.

„Framúrkeyrsla ríkisútgjalda er viðtekin venja sem einskorðast ekki við mögur ár ríkissjóðs í kjölfar bankahruns heldur á sér langa sögu. Á þensluárunum 2004-2007 var t.a.m. umframkeyrsla ríkisútgjalda frá fjárlögum að meðaltali 7% á ári og hefur verið á svipuðum slóðum síðan,“ segir Ásdís í greininni.

Ásdís segir jafnframt að vandamál ríkissjóðs séu að mestu bundin við agaleysi á útgjaldahlið. Tekjur hafi oft á tíðum verið miklar, einkum á þenslutímum, og ríkissjóður hafi í slíkum tilvikum getað skilað ágætis afkomu þrátt fyrir mikinn vöxt útgjalda. Slík þróun sé hins vegar ekki sjálfbær og til þess að fyrirbyggja áframhaldandi útgjaldavöxt hins opinbera væri skref í rétta átt að lögfesta útgjaldareglu samhliða þeim tillögum sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga.