Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) birti í janúar UFS-mat Reitunar á innlendu eignasafni lífeyrissjóðsins miðað við eignastöðu LSR í lok júní í fyrra.

Reitun er greininga- og matsfyrirtæki á fjármálamarkaði, en starfsemi þess nær til ársins 2005. Félagið byrjaði sem lánshæfismatsfyrirtæki en framkvæmir í dag bæði markaðsgreiningar og sjálfbærnismöt, svokölluð UFS-möt, og er eini aðilinn á íslenskum markaði sem framkvæmir slík möt.

„Við höfum mótað aðferðafræði sem nær utan um áhættuþætti á sviði sjálfbærni og eru aðlagaðir eftir atvinnugreinum, en áhættuþættir geta verið breytilegir á milli greina. Við greininguna söfnum við saman opinberum upplýsingum og fundum með stjórnendum til þess að fá frekari innsýn í sjálfbærniþætti og framtíðarsýn félaga,“ segir Finnur Orri Margeirsson, sérfræðingur hjá Reitun.

Spurður að því hvað sé átt við um áhættu í tengslum við sjálfbærni segir Finnur það vera margþætt.

„Það snýr m.a. að því að vera ekki tilbúinn að mæta regluverkinu á settum tíma, og áhætta frá sjónarhorni neytenda sem gera meiri kröfur á sjálfbærari vörur. Þar fyrir utan er fjármagnið sífellt að leita í grænni og sjálfbærari lausnir og eru auknar áherslur í þá átt.“

ESG ógni orkuöryggi heimsins

ESG-stefnan er verulega umdeild í fjármálaheiminum og ekki allir sannfærðir um ágæti hennar. Meðal þeirra er Amin Nasser, forstjóri olíufyrirtækisins Saudi Aramco, sem er nær alfarið í eigu sádiarabíska ríkisins. Hann sagði á ráðstefnu í Ríad, höfuðborg Sádi Arabíu, nú á dögunum að aukin áhersla á að draga úr fjárfestingu í fyrirtækjum í olíu- og gasvinnslu væri stefna sem byggð væri á gölluðum forsendum.

„Talsmenn og fylgjendur hinna svokölluðu orkuskipta mála upp mynd af útópískum heimi þar sem endurnýjanlegir orkugjafar geti tekið alfarið við af olíu og gas á einni nóttu.“

Nasser segir að fjárfestingarstefna keyrð áfram af ESG sjónarmiðum geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir orkuöryggi heimsins.

„Vanfjárfesting í hefðbundnum orkugjöfum á borð við olíu og gas myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir hagkerfi heimsins, orkuöryggi, og að orka geti fengist á viðráðanlegu verði.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.