Fjármögnun hefur verið tryggð til byggingar 2.300 félagslegra íbúða á næstu fjórum árum, að sögn Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Frumvörp um húsnæðismál er að finna á þingmálaskrá fyrir komandi þing, en ríkisstjórnin samþykkti viðamiklar aðgerðir í málaflokknum í tengslum við gerð kjarasamninga í vor.

Auk húsnæðismálafrumvarpa Eyglóar má meðal annars finna á þingmálaskránni frumvarp Ólafar Nordal innanríkisráðherra um millidómsstig, frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, um Lánasjóð íslenskra námsmanna og frumvarp um opinber fjármál og fjárlagafrumvarp sem lagt verður fram af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.