Fjárfestingafélaginu Kaldbak ehf., sem er að fullu í eigu útgerðarfélagsins Samherja hf., hefur verið veitt heimild til allt að tíu milljarða skuldabréfaútgáfu. Félagið gaf út 2,4 milljarða óverðtryggt skuldabréf í lok febrúar. Það er til tíu ára og greiðir Kaldbakur 7% óverðtryggða vexti. Ekki er greitt af höfuðstólnum fyrstu fimm árin.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Útgáfa skuldabréfa er vegna fjárfestinga Kaldbaks í Jarðborunum, sem félagið eignast 36% í, og í Olís. Enn er þess beðið að Samkeppniseftirlitið tilkynni um hvort kaup Samherjamanna og fleiri á Olís gangi í gegn.

Baldvin Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir í samtali við Morgunblaðið að kaupandi bréfanna hafi verið erlendur fjárfestir sem tók þátt í fjárfestingaleið Seðlabankans. Um hvort kaupandinn hafi verið dótturfélag Samherja erlendis segir hann að trúnaður ríki um kaupanda.