Frumkvöðlarnir Búi Aðalsteinsson og Stefán Thoroddsen standa nú fyrir fjármögnun á pöddusnakki, sem þeir fundu upp og kynntu til sögunnar á síðasta ári, í gegnum vefsíðuna Kickstarter .

Skordýr hafa lengi verið samþykkt matvæli í þróunarlöndum og fengu Búi og Stefán þá hugmynd að útbúa úr þeim orkustykki. Orkustykkið, sem hefur fengið heitið Jungle bar, er unnið úr kribbum (e. cricket) og þykir náttúrulegt, næringarríkt og sjálfbært að því er fram kemur á vefsíðu fyrirtækisins . Þá inniheldur það einnig mikið magn próteins, steinefna og Omega 3 og 6 fitusýra.

Þeir hafa sett sér það markmið að safna 15 þúsund bandaríkjadölum, en fjárhæðin samsvarar um tveimur milljónum íslenskra króna. Þegar hafa safnast 515 dalir, en 30 dagar eru eftir af söfnuninni.