Vísbendingar eru um að landsmenn hafi fjármagnað neysluaukningu sína á milli ára að hluta með því að hækka yfirdrátt sinn, að sögn hagfræðideildar Landsbankans. Fram kemur í Hagsjá bankans að yfirdráttarlán heimila hafi vaxið nokkuð umfram nafnvöxt kortaveltu.

Í Hagsjánni segir m.a að nokkuð kröftugur 12 mánaða vöxtur kaupmáttar hafi verið á fyrri hluta síðasta árs og hafi hann átt nokkurn þátt í því að vöxtur einkaneyslu mældist jákvæður. Á seinni hluta ársins hafi hins vegar dregið nokkuð úr vexti kaupmáttar launa og hann mælst minni en vöxtur í einkaneyslu. Heimilin hafi því þurft að fjármagna vöxt einkaneyslu á seinni hluta síðasta árs með öðru en auknum kaupmætti launa.

Bent er á að í fyrra hafi kortavelta aukist um 44 milljarða króna á verðlagi hvers mánaðar. Meðalstaða yfirdráttarlána milli sömu ára hafi aukist um um 13,5 milljarða og láti nærri að þriðja hver króna í aukinni kortaveltu hafi verið fjármögnuð með yfirdrætti.