Hannes Frímann Hrólfsson framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku segir fjármögnun bankans á breska fjárfestingarfélaginu OSF II þá fyrstu sinnar tegundar hjá bankanum þar í landi eftir að bankinn opnaði þar skrifstofu á síðasta ári. Nemur fjármögnunin 17 milljón pundum, eða sem nemur 2,4 milljörðum íslenskra króna að því er Fréttablaðið greinir frá.

Félagið, sem fjárfestir í breskum veðskuldabréfum með veði í fasteignum, var sett á stofn í samstarfi við breska fasteignalánafélagið Ortus Secured Finance.

„Við höfum góða reynslu af rekstri sjóða sem þessara. Við rekum allnokkra innlenda veðskuldabréfasjóði og erum nú að útvíkka það til Bretlands í samstarfi við Ortus í þessu tilviki,“ segir Hannes Frímann sem segir áhugann meðal fjárfesta hafa verið mikinn.

„Ástæðan er líkast til af tvennum toga. Annars vegar leitast margir innlendir fjárfestar nú eftir því að dreifa áhættu og fjárfesta fyrir utan Ísland og hins vegar eru væntingar um ávöxtun í umræddu verkefni háar þegar horft er til vaxtastigs í Bretlandi.

Það lýsir því kannski vel hvað lánamarkaðurinn í Bretlandi er erfiður um þessar mundir að það má ná fram hárri ávöxtun og það í pundum með tryggum fjárfestingum, en veðskuldabréfin eru með veði í fasteignum og oftast á fyrsta veðrétti. Að teknu tilliti til áhættu teljum við þannig að ávöxtunarmöguleikarnir séu góðir.“