Á sama tíma og Samfylkingin og Vinstri grænir hafa það á stefnuskrá sinni að ríkisútgjöld muni aukast um 50 til 75 milljarða króna á ári, þá er ljóst að upptaka hátekju- og auðlegðarskatta geti einungis fjármagnað um 4-18% af því. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna hefur sagt að hún vilji ekki hækka skatt á ferðaþjónustuna úr neðra í efra þrep, sem myndi skila um 18 milljörðum.

Jafnframt hafa forystumenn flokkanna sagt að ekki standi til að sækja fjármunina með því að hækka skatta á almenning að því er Fréttablaðið greinir frá. Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins segir útreikninga sýna að tuga milljarða kosningaloforð verði ekki eingöngu fjármögnuð með hátekju- og auðlegðarskatti.

„[Ú]treikningar sýna að miðað við tekju- og eignadreifingu landsmanna er einungis hægt að fjármagna brotabrot af þeim loforðum með slíkri skattheimtu,“ segir Ásdís.

Miðað við gögn Hagstofu Íslands yfir skattframtöl síðasta árs sést að 48 til 76 prósenta hátekjuskattur á laun yfir 25 milljónir á ári myndu einungis auka skatttekjur ríkissjóðs frá um 159 milljónum til að mesta lagi 2,7 milljarða á ári. Auðlegðarskattur sem lagður yrði á hreina eign yfir 150 milljónum króna myndi skila frá 5,1 milljarði upp í 10,2 milljarða á ári, þó það fari eftir skatthlutfalli.