Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, telur að aukið fjármagn innan hagkerfisins sé ekki að rata til réttra aðila. Þar vísar hún til efnahagsaðgerða stjórnvalda og Seðlabankans sem sporna eiga gegn áhrifum veirufaraldursins. „það er verið að setja gríðarlegt fjármagn inn í þann hluta kerfisins sem þarf ekki á því að halda,“ segir Kristrún í viðtali við Morgunblaðið.

Hún telur að fyrirtæki, líkt og veitingastaðir og ferðaþjónustufyrirtæki, hafi ekki fengið nauðsynlegt fjármagn og haldi því áfram að blæða. Í staðinn hafi fjármagnið farið í húsnæðislán og bendir Kristrún á að rúmlega 100 milljarðar króna hafi bæst við skuldir heimilanna síðan í mars á þessu ári.

Hún segir enn fremur að viðskiptabankarnir hafi stækkað um 330 milljarða króna frá því að veiran herjaði á landsmenn. Þar af hafa 200 milljarðar farið í húsnæðislán, 90 milljarðar í ríkisvíxla og um 30 milljarðar farið til fyrirtækja, „sem er auðvitað ekki neitt.“

Styrkir hefðu nýst betur

Kristrún segir að það hafi verið mistök að treysta nær alfarið á markaðinn til þess að koma fjármagni til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir tekjufalli. „Ríkið hefði átt að setja peningana beint inn í fyrirtækin. Bankarnir hafa engar viðskiptalegar forsendur til að veita slík lán og eru þar af leiðandi í erfiðri stöðu. Þeir hafa ekkert til að miða við varðandi tekjuflæði í framtíðinni. Þess vegna hefur fjármagnið farið í húsnæðislán.“

Hún segir að fjármagnið hafi farið inn á eignamarkað, þar sem ekkert fjármagn skorti. Með því minnki svigrúmið til að styðja við fyrirtæki sem bráðnauðsynlega þurfi fé. Því hafi aðgerðin verið vanhugsuð.