Sú grundvallarbreyting sem orðið hefur á fjármagnsflæði til og frá landinu endurspeglast í gjaldeyrisjöfnuði bankastofnana, segir greiningardeild Glitnis.

?Nettóstaða jöfnuðarins var að vísu jafnan tiltölulega lág þar til í nóvember í fyrra, þegar jöfnuðurinn varð skyndilega jákvæður um rúma 40 milljarða króna og hefur sú tala hækkað jafnt og þétt síðan. Að meðaltali var gjaldeyrisjöfnuðurinn jákvæður um ríflega 84 milljarða króna í september, sem þýðir að eignir bankanna í erlendum gjaldeyri voru meiri en skuldir sem nemur þessari upphæð.

Þetta jafngildir 11,5% af eigin fé bankanna í lok septembermánaðar, en samkvæmt reglum Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð má misræmi milli gjaldeyriseigna og -skulda hverrar bankastofnunar ekki fara yfir 30% af eigin fé hennar til að minnka gjaldmiðlaáhættu í fjármálakerfinu," segir greiningardeildin.

Hún segir að staðan er að miklu leyti í mótstöðu við stöðu viðskiptavina, sem samkvæmt þessu hafa gert framvirka samninga um sölu á gjaldeyri fyrir mun hærri upphæð en sem nemur framvirkum kaupsamningum.

"Þessi munur á framvirkum sölu- og kaupsamningum er einn þeirra þátta sem stutt hafa við gengi krónu undanfarið. Til að mynda koma áhrif af útgáfu erlendra krónubréfa fram í þessari stöðu ef gerður hefur verið skiptasamningur samhliða. Eftir því sem munurinn eykst vaxa að sama skapi líkur á töluverðum áhrifum til lækkunar á gengi krónunnar ef til breytinga kemur á stöðunni.

Krónan lækkar þannig ef til þess kemur að markaðsaðilar kjósa að minnka framvirk kaup sín á gjaldeyri, en þau endurspegla að öllum líkindum væntingar manna um hver gengisþróun og vaxtamunur verði næstu misseri," segir greiningardeildin.